Gestadvöl í Bókmenntaborginni Kraká

Fyrir unga og upprennandi höfunda

Kraká í Póllandi er Bókmenntaborg UNESCO líkt og Reykjavík. Nú býður Bókmenntaborgin þar í fyrsta sinn upp á gestadvöl fyrir unga og/eða upprennandi rithöfunda frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO. Markmiðið með verkefninu er að styrkja tengslin milli Bókmenntaborganna og að veita höfundum frá þessum borgum vettvang til að kynna verk sín fyrir lesendum í Mið-Evrópu, að styðja við aukna fjölbreytni í bókmenntalífi Póllands og veita þarlendum höfundum tækifæri til að kynnast og mynda tengsl við erlenda rithöfunda. KrakowCityofLit Bókmenntaborgin Kraká hefur umsjón með verkefninu, en hún er rekin innan Hátíðaskrifstofu Krakár, Krakow Festival Office.

Hvað er innifalið?

Í ár, 2017, verður höfundum boðið að dveljast í einn mánuð í Villa Decius, maí, júní eða október. Villa Decius, sem er samstarfsaðili að verkefninu, hefur langa reynslu af gestadvöl höfunda, m.a. innan Visegrad Literary Residency verkefnisins og ICORN (International Cities of Refuge). Villa Deceus Gestahöfundurinn fær 2.500 zloty (PLN) á meðan á dvöl stendur og einnig eru ferðir til og frá Kraká greiddar, auk gistingarinnar. Höfundur fær auk þess tækifæri til að taka þátt í bókmenntalífinu í Kraká og aðstoð við að koma verkum sínum á framfæri í Póllandi.

Skilyrði

• Gestadvölin er eingöngu fyrir höfunda frá Bókmenntaborgum UNESCO á aldrinum 25 – 45 ára. • Gott vald á enskri tungu. • Höfundur þarf að eiga eitt útgefið ritverk (skáldrit eða annað rit), kvikmynda- eða sjónvarpshandrit, leikverk eða hafa þýtt verk á pólsku. • Höfundur verður beðinn um að skrifa texta (skáldaðan eða óskáldaðan) sem lýsir borginni Kraká á einhvern hátt (minnst 6.000 og mest 11.000 slög með bilum) og kann hann að verða birtur í safnriti í framtíðinni sem notað verður í kynningarskyni. • Áhugi á Mið-Evrópu. • Vilji til að taka þátt í bókmenntalífinu í Kraká á meðan dvöl stendur, svo sem viðburðum, fundum, kynningarviðtölum og hátíðum, eftir því sem við á. • Að dvölin sé notuð til að vinna að ritverki.

Umsókn

Í ár er hægt að sækja um að dvelja í Kraká í einn mánuð eins og áður sagði, í maí, júní eða október. Tekið er við umsóknum til 15. mars næstkomandi. Fylla þarf út umsóknareyðublað sem finna má hér.