Siljan - Myndbandasamkeppni

Stuttmyndir um bækur

Barnabókasetur stendur fyrir árlegri myndbandasamkeppni fyrir nemendur í 5.-10. bekk grunnskóla. Keppt er í tveimur flokkum, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk og geta nemendur keppt hvort sem er einir eða í hópi. Krakkar hvar sem er á landinu geta tekið þátt. siljan-2017-vefmynd

Keppnin

Markmiðið með keppninni er að vekja athygli á bókum og að auka bóklestur barna og unglinga. Viðfangsefni myndanna eru bækur en hver mynd skal fjalla um eina barna- eða unglingabók sem kom út á íslensku á árunum 2014-2016. Myndirnar mega vera 2-3 mínútur að lengd. Vista skal myndböndin á netinu (til dæmis youtube.com) og senda slóðina og upplýsingar um höfunda til barnabokasetur@unak.is í síðasta lagi 10. mars 2017. Kennarar og skólastjórnendur eru hvattir til að vekja athygli nemenda á samkeppninni en hana má líka nýta sem skólaverkefni.

Verðlaun:

Fyrstu verðlaun: 25.000 krónur. Önnur verðlaun: 15.000 krónur. Þriðju verðlaun: 10.000 krónur. Auk þess fá skólasöfnin í skóla sigurvegaranna í hvorum flokki 100 þúsund króna bókaúttekt frá Barnabókasetri og Félagi íslenskra bókaútgefenda. Þetta er í annað sinn sem Siljan er haldin og má skoða myndir frá síðustu samkeppni á Youtube: Siljan myndbönd. Þau eru jafnframt tengd við bókasafnakerfið leitir.is þar sem þau geta komið að góðum notum þegar börn og unglingar leita sér að lesefni.

Barnabókasetur

Barnabókasetur, rannsóknarsetur um barnabókmenntir og lestur barna, er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins á Akureyri. Aðild að setrinu eiga jafnframt Rithöfundasamband Íslands, IBBY, Félag fagfólks á skólasöfnum og SÍUNG, Samtök barna- og unglingabókahöfunda.