Indjáninn

Höfundur: 

Mál og menning, 2006

Útlagadrengurinn

Jón Gnarr hefur kosið að kalla nýútkomna bók sína skáldaða ævisögu enda er hún byggð á æskuminningum sem hljóta eðli málsins samkvæmt að vera hreinasti skáldskapur eins og höfundurinn bendir á í eftirmála. Það eru auðvitað engin nýmæli að höfundur láti meðvitað reyna á þessi mörk sannleiks og skáldskapar, nægir að nefna skáldævisögur Guðbergs Bergssonar sem komu út fyrir nokkrum árum. Tilgangur Jóns virðist þó vera nokkuð annar en Guðbergs, ég fékk að minnsta kosti á tilfinninguna við lestur bókarinnar að hér sé verið að reka varnagla og benda á að um sé að ræða minningar sem hafa mallað við vægan hita í huganum og því kunni áferðin að hafa breyst þó að innihaldið sé nokkurn veginn það sama. Þessi minningabrot hafa fengið að slípast til í áranna rás og það sem eftir situr hefur vafasamt heimildagildi, svona að minnsta kosti í hefðbundnum skilningi.

Indjáninn er fyrsti hlutinn af þríleik en þar er fjallað um líf höfundarins frá fæðingu til um það bil tólf ára aldurs. Frásögnin virðist vera nokkuð línuleg en hún er byggð upp af minningabrotum, nokkurskonar skyndimyndum af ákveðnum atburðum sem eru höfundi einhverra hluta vegna minnisstæðir er varpað upp. Þeir sem voru börn á áttunda áratugnum eins og undirrituð munu kannast við ýmislegt hérna, hver man ekki eftir dulmálinu í Búnaðarbankakompunni, Greaseæðinu og Duffys gallabuxum? Það á þannig eflaust margt í dægurmenningu þess tíma eftir að rifjast upp fyrir þeim sem nú eru um það bil að geta talist miðaldra. Það þarf auðvitað heldur ekki að koma neinum sem þekkir til verka Jóns á óvart að frásögnin er oft býsna fyndin en þegar á heildina er litið er þetta þó langt frá því að vera hreinræktuð gamanfrásögn, hún er í raun afar sorgleg. Í Indjánanum er nefnilega rakin saga barns sem er einangrað, afskipt og einmana. Jón Gunnar, aðalpersóna skáldsögunnar, er ekki venjulegur í neinum skilningi þó að hann þrái stundum ekkert heitar en að falla í hópinn. Foreldrar hans eru orðin nokkuð fullorðin þegar þau eignast hann (á þess tíma mælikvarða að minnsta kosti) og ráða hreinlega ekki við hann, á þessum tíma eru fyrirbæri á borð við ofvirkni og athyglisbrest ekki komin til sögunnar en í dag hefði þessi strákur sennilega fengið einhverja slíka greiningu og væntanlega hjálp í samræmi við það.

Lýsingin á einangruninni og sársaukanum sem Jón Gunnar upplifir er tvímælalaust mesti styrkur þessarar frásagnar. Hún ber þess merki að höfundurinn hefur virkilega velt fyrir sér orsökum og afleiðingum en það er ekki aðalatriðið hérna heldur það hvernig höfundinum tekst að lýsa þessari ruglingslegu tilvist barns sem skilur ekki aðstæður sínar og af hverju því líður eins og því líður. Þetta sjónarhorn utangarðsbarnsins kemur vel út í seinni hluta bókarinnar en þá er persónan auðvitað stálpaðri en í byrjun og hefur meiri forsendur til að setja hugsanir sínar í form.

Framan af fannst mér frásagnarmátinn hinsvegar þreytandi, höfundurinn nær ekki alveg að halda utanum frásagnarhátt barnsins og kunnugleg rödd höfundarins verður einhvern veginn of áberandi í textanum miðað við umfjöllunarefnið. Það er eins og höfundurinn nái ekki alveg að virkja þennan knappa stíl sem hann notar og kaflarnir renna hálfpartinn saman í minningunni. En höfundurinn sýnir hvers hann er megnugur þegar líður á frásögnina. Það er svo sem ekkert nýtt við það að íslenskir rithöfundar (og þá aðallega karlmenn) noti bernsku sína og uppvöxt sem sagnaefni og það gjarnan í nostalgískum skilningi en hér er annar tónn. Hér er verið að skrifa um barnið sem fáir vilja þekkja og ennþá færri skilja en án þess að einhver armæðulegur uppgjörsstíll sé á frásögninni eins og stundum vill verða ef þeir sem skrifa hafa upplifað sig sem þolendur í lífinu.

Það má segja að Jón Gnarr sé kominn töluvert langa leið frá frumraun sinni í skáldsagnagerð en einhverjir muna eflaust eftir fyrstu skáldsögu hans, Miðnætursólborginni, sem kom út fyrir margt löngu. Þar er ofbeldi, kynlíf og blóð í aðalhlutverki og efnistök öll tilraunakenndari. Hinsvegar má segja að þessar bækur eigi meira sameiginlegt en virðist í fyrstu, stíllinn er knappur og frásagnarhátturinn er blátt áfram í báðum bókunum. En þær virðast líka vera að einhverju leyti skrifaðar frá sama sjónarhóli, í káputexta Miðnætursólborgarinnar er höfundi lýst sem svo að hann hafi verið „hjartveikur og taugaveiklaður drengur ofsóttur af jafnöldrum sínum sakir vanmáttar síns.“ Túlka má framhald káputextans þannig að með frásögninni sé höfundurinn að lifa drauminn (eða martröðina) sem konungar skóganna og aðrir ævintýramenn og útlagar drengjabókmenntanna hafa vakið upp hjá honum en slíkir draumar koma sér vel þegar forðast þarf erfiðan veruleika. Samanburður af þessu tagi er líklegast efni í annan pistil, en það er þó ljóst að skáldskapur og veruleiki tengjast flóknum böndum í skáldskap höfundarins.

Þorgerður E. Sigurðardóttir, nóvember 2006